top of page

HEILUN

HVAÐ ER HEILUN?





Viðar Aðalsteinsson skrifar

Skilningur minn á því hvað heilun er kemur til af áratuga reynslu í að vinna með fólki og sjálfan mig við að bæta almenna heilsu.  Heilun fyrir mér er því að leitast við að ná góðri líkamlegri, huglægri, tilfinningalegri og andlegri heilsu og jafnvægi.  Heilun og sjálfsheilun er því augljóslega eitthvað sem við ættum að líta til.































  

Það gefur auga leið að lífsorkan sem gefur okkur næringu og styrk til að þroskast og þróast sem lífsform, þarf að fá greiðan aðgang að okkur ef allt á að vera í lagi.  Ójafnvægi í orkuflæði skapar sjúkt ástand, en um leið og meira jafnvægi er komið á, þá skapast eðlilegra ástand og orkuheilun hefur átt sér stað.



Heilun er því það að gera aftur heilt, að skapa jafnvægi þar sem áður hefur verið ójafnvægi og að græða það sem hefur verið sjúkt. Öllu lífi er gefinn kostur á því að koma á jafnvægi þar sem skapast hefur ójafnvægi; það er í eðli grunnorkunnar að leita eftir samhljómi og jafnvægi. En maðurinn hefur huga og frjálsan vilja, og spurningin er hvort hann notar sér þessar gjafir til góðs eða ills?  Hver og einn verður að svara fyrir sig.



Með huganum og frjálsum vilja getur maðurinn hæglega truflað eðlilegt orkuflæði, en hann gerir sér ekki alltaf grein fyrir því að hann sé að valda sjálfum sér og öðrum skaða.  Alveg eins og við getum látið öðrum líða vel í kringum okkur að þá getum við látið þeim líða illa með hugsun, tali og framgangi.   Því er afar mikilvægt að við séum ávallt meðvituð um það hvert við beinum orkunni og athyglinni.





Lífsferlið og möguleikar til hamingju

Samkvæmt rannsóknum hefur komið í ljós að 95% allra barna sem fæðast á jörðinni eru heilbrigð. Frávikið er því 5%, sem segir okkur að möguleikar okkar mannanna til að lifa heilbrigðu og góðu lífi eru nokkuð góðir.​

Þegar ber á ójafnvægi hafa all flestir þann möguleika og þá eiginleika til að bera að heila sig sjálfir ef vilji og skilningur á orkuflæði er fyrir hendi.  Efnisgerðin hefur samt sem áður ákveðinn líftíma og það er vert að bera virðingu fyrir náttúrulögmálinu.  Ekki er vitað til þess með óyggjandi hætti að líkaminn lifi óendanlega, líkami mannsins er með lífsmöguleika til 80 ára +.  Örlög líkamans eru síðan að hverfa til móður jarðar og leysast upp í niðurbroti og hverfa inn í frumeindir sínar, en sálin heldur áfram ferðalagi sínu um andleg svið tilverunnar.
 

 

 

Heilun - kærleiksríkt ástand

Til eru margar mismunandi aðferðir við heilun og nálganirnar eru eins fjölbreyttar og fólkið sem á í hlut.  En allar aðferðirnar eiga það sameiginlegt, og er það skilningur þeirra sem hafa upplifað heilun, að heilun sé kærleiksríkt ástand. Þekktastar á meðal heilunarnálganna eru almenn heilun og reiki heilun, en einnig er til; andleg heilun, tilfinningaheilun, huglæg heilun, orkustöðvaheilun, tónheilun, smáskammtaheilun, orkujöfnunarheilun, ljósheilun, jarðefnaheilun, vatnsheilun, öndunarheilun,  dansheilun og margar fleiri.



Þau raunverulegu áhrif sem fólk upplifir við heilun eru ýmis konar. Ekki er óalgengt að fólk nefni hitastraum fara um líkamann, að það skynji ljós fara um sig, greini alls kyns litbrigði og að það finni raunverulega fyrir straumi fara um líkamann. Þetta hefur verið mælt og staðfest af þekktum vísindastofnunum eins og Stanford University, af hinum virta lífeðlisfræðingi Dr. William Tiller,  og víða annars staðar.
 

Öll heilunarnálgun ætti að vera bænatengd; að óskað sé eftir alltumlykjandi vernd og blessun fyrir stund og stað og að beðið sé fyrir bót og betri líðan fyrir viðkomandi eins og hið æðsta göfugasta vill en ekki eins og persónulega ég-ið vill.  Persónuleg nálgun getur verið sársaukafull vegna skilyrðinga og því ætti öll nálgun að vera óeigingjörn, frá hjartanu og af hinum hæsta ásetningi.

 

 



Heilun - flæðandi orka

Ég lít á manneskjuna sem dýrmæta auðlind sem við höfum umsjón með. Einnig er hægt að líta á hana í heild sinni sem farveg fyrir lífsorku. Heilun getur því talist það ferli að halda farveginum hreinum og opnum svo að orkan eigi greiðan aðgang og fái að flæða fram frjálslega og leikandi. Þannig getum við upplifað heilun fyrir aðra og okkur sjálf.



Líkaminn hefur þann undursamlega hæfileika að lækna sig sjálfur þegar hann fær frið til þess.  Þessi friður sem er svo mikilvægur er hugkyrrð og innri ró.

   

Gott veganesti er skilyrðislaus ást, sjálfsvirðing, sjálfsviðurkenning, sjálfstraust, þolinmæði og þrautseigja, lítillæti, auðmýkt, samúð, æðruleysi, gjafmildi, góð opin og skörp meðvitund, jafnvægi,  samhljómur og umfram allt gleði til góðra verka, elska það sem við gerum inní óendanleikann og eilífðina, og kærleiksríkt opið hjarta.
 

Guð og góðar vættir veri með okkur öllum,

Viðar Aðalsteinsson

„Heilun er algerlega eðlilegt ferli og er hugsuð sem flæði af gagnlegri orku á milli þeirra sem veita og þiggja.  Veitandi aðstoðar þiggjanda við að tengjast sínum meðfæddu eiginleikum sem felast í að geta heilað sjálfan sig.“

bottom of page