top of page

 


Heil og sæl kæru vinir.

Þá er kominn júní og ef vel er að gáð þá hefur hitastigið hækkað aðeins, frá degi til dags.  Það er yndislegt að velja að upplifa hvernig náttúran getur leikið við skilningarvitin um þessar mundir, náttúran er að vakna af svefni vetrar og allt er einhvernveginn eins og það á að vera, í takti við hrynjanda lífsins.

(HÉR AÐ NEÐAN : ÞAR SEM FRÁ VAR HORFIÐ Í JÚNÍFRÉTTABRÉFI THETA VELFERÐAR ... )
 

 

Það er 8. Júní og kl. er 05:59 að morgni, ég hef ekki getað skrifað í nokkra daga fréttabréfið sem á að fara frá mér í þessum mánuði, einhver tregða í hugmynda - sköpunar - flæðinu, ekki ósvipað og er að gerast í náttúrunni sjálfri, það er eins og sumarið sé að láta bíða eftir sér.
 

Góðir hlutir gerast hægt er máltæki sem flest okkar þekkjum, og hvernig væri nú að leyfa góðu hlutunum að gerast. Júní má alveg vera þessi jákvæði góði tími þar sem við ákveðum að lífið sem við erum að lifa fái að líða fram í fegurð og blómstri rólega og í takti við náttúruna. 

Fylgjumst með okkur gera hlutina, verum vakandi yfir öllum okkar vönum og venjum, látum ekkert fara framhjá okkur óskoðað, verum með vökul augu arnarins sem sér allt svo skýrt og greinilega og nákvæmlega eins og það er. Ekki eins og það ætti að vera eða gæti verið, heldur eins og það er raunverulega.

Örninn er yfirvegaður yfir öllu saman.

Hann býr yfir stóískri ró þess sem veit skynjar og skilur aðstæður

og ástæður fyrir því sem er að gerast innst í  fylgsnum sálar.  

Í indjánafræðum táknar örninn hinn mikla Anda, sem vakir yfir og gegnum smýgur allt lífsform, gefur líf.  Við getum ef við viljum og þjálfum okkur í einlægni, náð sambandi við okkar innsta kjarna án íhlutunar skilyrta hugans, leyfum kyrrlátri varurð að líða áreynslulaust að ljóskjarna okkar verundar, og frá þeim stað er auðvelt að fylgjast með sjálfum sér. Með öðrum orðum verða fullkomlega meðvitað vitni af sjálfum sér án íhlutunar.  Hvernig getum við meðtekið, skilið og látið virka svona fallega fyrir okkur þessi orð, án íhlutunar?  Svipuð merking er í orðunum, ,að vera ekki með afskiptasemi'. 
 

,Án íhlutunar' er þegar við leyfum öllu að vera í lagi eins og það er og dæmum ekki það sem við sjáum og skynjum, leyfum hlutunum að gerast eðlilega án afskiptasemi okkar og öndum inn í kyrrláta varurð.   Við getum byrjað á því að þjálfa okkur með því að fara um í náttúrunni, það er ekki leiðinlegt, og líta í kringum okkur, njóta þess sem við sjáum og skynjum án þess að hafa nokkuð um það að segja. Náttúran er ekkert að heimta af okkur að við höfum einhverjar skoðanir á henni, hún er alveg nóg í sjálfum sér, geislandi í fegurð og sköpun án okkar íhlutunar, úps þarna sjáið þið hvað það er auðvelt að missa sig út í skoðanir og skýringar á því sem er í kringum okkur, en það er fyrirgefið á meðan lýsingarnar eru fallegar og jákvæðar. 
 

Þegar við erum orðin þjálfuð í því að líta í kringum okkur og njóta í kyrrð og ró,

án þess að hafa nokkuð um það að segja hvernig náttúran velur að skapa sjálfa sig

í öllum sínum fjölbreytileika,  getum við fært okkur inn á við

og farið að skoða hvernig við höfum komið fram við okkur sjálf,

skoðað okkur í gegnum tímann.

Þarna gæti einhver spurt sig hvort maður ætti ekki að vera gagnrýninn á sjálfan sig.  Hvernig getur maður lært nema að reka sig á?  Allt er þetta gott og blessað á meðan við erum að átta okkur á því hver við erum og hvað við höfum verið að gera, hvaðan við erum að koma og hvert við viljum fara, en þegar við hefjum okkur upp fyrir eða færum okkur inn fyrir hlutlægu hugsanirnar og skilyrta hugann og veljum að styrkja samband okkar við innsta kjarna verundar okkar, sem við getum kallað sjálfið, andann í okkur, þá erum við að tala um allt annan hlut, eða réttara sagt eðli, okkar innsta eðli og jafnvel inn fyrir það. Mér finnst ég ekkert vera of háfleygur í mínu tali þegar ég leyfi mér að segja að maðurinn sé andleg vera sem er að ganga í gegnum mannlega reynslu hér á þessari yndislegu jörð,  það er mín  tiltrú og skilningur.


Með þessa tiltrú og skilning að leiðarljósi ætti að vera nokkuð auðvelt að tengjast erninum, sem er fullkomlega fær um að sjá skýrt og raunverulega hvernig allt  lífið ER, í fullkomnum samhljómi við hringrás sköpunarinnar.
 

Elsku vinir, allt er harla gott, gefum hlutlausri jákvæðri skoðun líf, opnum hjörtun og hleypum ljósunum út í leik við sólargeislana í júní.    ♥♥♥

Guð og góðar vættir veri með okkur og einlæg ósk um velfarnað á öllum sviðum.
Viðar Aðalsteinsson

 

 

10.JÚNÍ 2013

YFIRSÝN OG YFIRVEGUN

bottom of page