Það er yndislegt til þess að vita að við getum valið að vera mild í skapi og létt í lund.
Þegar við beinum athygli okkar að jákvæðum hugsunum og hugmyndum erum við að búa til veruleika inni í líkamanum sem speglar þessar hugsanir og myndir, og úr verður yndislegur innri veruleiki sem tengist taugakerfinu og undirmeðvitundinni á mjög svo fallegan og undursamlegan hátt.
Aðgát í hugsun og orði skal höfð í nærveru sálar
Þegar við áttum okkur á því að allar hugsanir, hugmyndir, tilfinningar og orðin sem fylgja yfirleitt í kjölfarið, hafa umbreytingarkraft með sér, (vegna sterkrar tengingar við undirmeðvitundina) hvort sem þau eru í bundnu máli eða óbundnu, (rituðu eða töluðu eða sungin), þá getum við meðvitað breytt líðan okkar til betri vegar.
(HÉR AÐ NEÐAN : ÞAR SEM FRÁ VAR HORFIÐ Í MAÍFRÉTTABRÉFI THETA VELFERÐAR ... )
Skoðum þetta aðeins nánar:
Mannslíkaminn er með taugakerfi, boðleiðakerfi/ taugabrautir, fyrir boð og upplýsingar sem berast frá heilanum. Þetta geta verið hugsanir, hugmyndir tengdar minningum, vonir og ímyndanir tengdar væntingum um framtíðina og tilfinningar flæða þar um. Ef heilinn, undirstúka og undirmeðvitund eru ekki vel uppfærð þá er ekki von á góðu.
Undirmeðvitundin virkar sem rafall sem flytur þessi boð um líkamann vægðarlaust, og það verða til mismunandi efnahvörf og hormónaframleiðsla í öllu ferlinu. Það geta átt sér stað frumubreytingar hér og þar í líffærum og innkirtlum sem hafa síðan mismunandi verkanir og útkomu á starfsemi líkamans í heild. Taugakerfið getur verið undir miklu álagi ef svo ber undir, eins og mismunandi mikil og þung áföll hjá okkur bera glöggt vitni um.
Við erum misvel undirbúin fyrir slíkar sviptingar á almennri starfsemi líkamans, því við erum öll með mismunandi vel uppfærð varnar og ónæmiskerfi.
Með niðurrífandi hugsunum og umgengni getum við brotið niður
eðlilegar og réttar varnir á tiltölulega skömmum tíma.
Mörg raunveruleg dæmi eru til um slíkt.
Allir þeir sem eru sérstaklega viðkvæmir, eru með viðkvæmt taugakerfi, verða að fara sérstaklega vel með sig og passa vel upp á hugarfarið, temja það og tilfinningarnar, velja holla hreyfingu og rétt mataræði og síðast en ekki síst góða hvíld/svefn.
Ef við erum ekki vakandi fyrir þessu snemma á æviskeiðinu þá er eins víst að við veikjum sogæðakerfi og ónæmiskerfi líkamans langt um tíma fram.
Það er gott að leggja á minnið að frumur líkamans elska að fá til sín efni eins og serótónín, endorfín og síðast en ekki síst melatónín. Í næsta bréfi tala ég um hvernig við getum hjálpað líkamanum við að framleiða þessi efni. (Júní fréttabréf THETA VELFERÐAR 2013)
Áður en við áttum okkur enn betur á þessum gríðarlega krafti og mætti sem dvelur í undirmeðvitundinni, er gott að skilja eðli hennar og hlutverk. Hún var sköpuð til að þjóna okkur og fylgja eftir skipunum sem meðvitaði hugurinn gefur henni.
Það að undirmeðvitundinni er ætlað að þjóna, gerir það að verkum að hún er mjög lélegur húsbóndi. Samt sem áður leyfir flest fólk henni að stjórna lífi sínu.
Undirmeðvitundin er samsett af löngunum, duttlungum og tilfinningum og orkunni sem knýr okkur áfram til að fullnægja þeim. Fyrir mörgum öldum skrifaði Salomon konungur „Maðurinn er, eins og hann hugsar í hjarta sínu“.
Orðið ,hjarta‘ þýddi auðvitað sæti tilfinninganna, sem er undirmeðvitundin, og hann hafði sannarlega rétt fyrir sér. Krafturinn sem fær þig til að haga þér á þinn venjulega hátt, er ekki það sem þú hugsar meðvitað, heldur ómeðvitað. Viðhorf undirmeðvitundarinnar ræður til um hvort um velgengni eða mistök er að ræða, veikindi og heilsu, hamingju og óhamingju.
Skoðum nú hvaða 6 lífsnauðsynlegu hlutverkum undirmeðvitundin gegnir:
1. Undirmeðvitundin þjónar þér eins og minnisbanki eða tölva
Með hjálp billjóna örsmárra taugafrumna sem tengjast saman, er allt fært til langframa inn í heilann. Allt sem við höfum einhvertíma séð, heyrt, fundið lykt af eða bragðað eða reynt á einn eða annan hátt, fer inn í völundarhús minningamynstra og þegar þau eru örvuð senda þau upplýsingarnar til baka til meðvitaða hugans. Ekkert sem við höfum lært eða reynt þurrkast nokkurn tíma út úr frumunum, nema hluti heilans skemmist eða sé numinn brott. Þessi hugur, eða minnisbanki starfar eins og tölva á fleiri en einn veg.
2. Undirmeðvitundin stjórnar ósjálfráðri starfsemi líkamans
Undirmeðvitundin stjórnar öndun, meltingu, hringrás blóðsins og losun úrgangsefna. Þar sem spenna og streita virka bælandi á þessi ferli þá eru þau orsakavaldar að því sem við köllum sállíkamleg veikindi.
3. Tilfinningarnar búa í undirmeðvitundinni
Bústaður tilfinninganna er í undirmeðvitundinni og það skýrir yfirráðin yfir meðvitaða huganum. Þar sem tilfinningarnar stjórna styrk langana og langanir stjórna hegðun okkar, þá erum við háð náð og miskunn undirmeðvitundarinnar nema við lærum að stjórna henni. Þegar langanir okkar stangast á þá hafa þær sem eru ómeðvitaðar yfirleitt yfirhöndina.
Langanir í undirmeðvitundinni til að fylgja trúarlegum eða siðfræðilegum gildum, hindrar jafnsterka löngun meðvitaða hugans í að við gerum eitthvað sem er óæskilegt.
Við gerum alltaf það sem okkur langar mest til að gera, og allar athafnir okkar hafa verið vegnar og metnar og sú löngun sem er sterkust hefur vinninginn. Þar sem undirmeðvitundin hýsir tilfinningarnar sem stjórna styrkleika þess sem okkur langar til að gera, þá er ljóst að hún ræður þeirri stefnu sem við tökum. Ef meðvitaði hugurinn hefur ekki staðið sig vel í að forrita undirmeðvitundina, þá mun undirmeðvitundin standa sig illa í að hafa stjórn á ákvörðunum okkar og hátterni sem leiðir af þeim.
Eins og fram hefur komið þá er undirmeðvitundin ófær um að taka afstöðu og trúir öllu sem henni er sagt. Ef undirmeðvitundinni væri talið trú um að þú mundir deyja einhvern ákveðinn dag, þá mundir þú gera það.
Þessi dauða forritun hefur verið útfærð með árangri hjá fólki sem trúir á voodoo. Ef einhver trúir því að fleyg sé stungið í gegnum dúkku í hjartastað og þessi dúkka eigi að tákna hann, þá deyr hann. Við segjum „sá sem trúir“ því undirmeðvitundin tekur aðeins við því sem meðvitaði hugurinn trúir.
Gamall maður í Nebraska var sannfærður um, að hann dæi færi hann í bað. Hann kveið mest fyrir því að verða veikur og að þá yrði hann fluttur á spítala þar sem hann vissi að það fyrsta sem yrði gert væri að baða hann. Eftir því sem hann eltist urðu beinin í honum stökkari og einn daginn datt hann og mjaðmarbrotnaði.
Hann dó með mótmæli á vörunum, þegar hann var baðaður daginn eftir á sjúkrahúsinu.
Trú í undirmeðvitundinni getur leitt þig til dauða eða læknað þig!
4. Undirmeðvitundin er heimkynni ímyndunarinnar
Fólk sem segir að það hafi ekkert ímyndunarafl hefur aðeins bælt það. Ímyndunaraflið er samt sem áður þarna, oft starfandi af krafti við að vinna á móti velgengni og vellíðan þeirra.
Börn hafa líflegt og frjótt ímyndunarafl. En þegar þau stækka, fullorðnast og þurfa að standa og horfast í augu við sársaukafulla reynslu raunveruleikans, þá verða þau hrædd við ímyndunaraflið. Þau hræðast meiri tálvonir og vonbrigði. Samt sem áður heldur ímyndunarafl þeirra áfram og vegna þess að því er ekki stýrt getur það snúist út í mikla svartsýni þar sem ímyndunin snýst um það sem þau hata og hræðast.
Þeir sem verða undir í lífinu eru yfirleitt þeir sem eru bölsýnir og með uppgjöf í sér, þar sem undirmeðvitundin ákveður gerðir þeirra. Það viðhorf að eitthvað muni mistakast hefur yfirleitt það í för með sér að það gerir það.
Að skapa með ímynduninni er eitt stærsta leyndarmál velgengni
Listamenn, tónlistarmenn, verkfræðingar og arkitektar sem njóta velgengni ná í hæfileika sína inn í undirmeðvitundina. Flest þau frábæru verk sem sköpuð hafa verið, litu dagsins ljós á meðan listamennirnir voru í einhverskonar sefjun. Á því stigi ræður ímyndunin ríkjum á meðan að rökhugsunin dormar, og kraftar sköpunarinnar ná hátindi sínum. Mozart fullyrti að innblástur til tónsmíðanna hefðu skapast eins og draumar gera, óháð vilja hans. Coleridge skapaði Kubla Kahn ,í svefni‘ ,Newton leysti flest stærðfræðileg vandamál í svokölluðum draumi. Goethe sagði að mestu ljóð hans hefðu verið skrifuð í draumlíku ástandi. Þessi fáu dæmi sanna regluna fremur en að vera undantekning.
Einn samtíma andlitsmálari sagði, að hún málaði bestu verkin með því að leyfa huga sínum að slaka á og leyfa höndunum að vinna fyrir sig. Sú færni sem hún hafði þjálfast upp í og lært, virtist tengjast tilfinningum hennar og ímyndun, sem eru í undirmeðvitundinni, og ná með því árangri, sem hún gat ekki gert á meðvitaðan máta.
En ímyndun getur eyðilagt þig, sé henni ekki stjórnað.
Ef þú ímyndar þér að maki þinn sé þér ótrúr, mun framkoma þín jafnvel geta eyðilagt hjónabandið. Ef þú ímyndar þér, að fólki líki ekki við þig, eru viðbrögð þín við því þannig, að þau gera það ekki.
Ef þú á hinn bóginn ímyndar þér að þú sért vingjarnleg og vel liðin manneskja, þá eignast þú vini auðveldlega. Ef þú lærir að stjórna ímyndun þinni, vinnur hún fyrir þig á skapandi hátt.
Þar sem hún er staðsett í undirmeðvitundinni, er dáleiðsla langhagnýtasta leiðin til að beisla krafta hennar.
5. Undirmeðvitundin viðheldur vanabundinni hegðun okkar
Hún hefur stjórn á og stýrir athöfnum sem við höfum gert að venjum.
Eftir að þú hefur lært eins hefðbundnar athafnir eins og að aka bíl, klæða þig, eða að spila tennis, þá þarftu ekki lengur að stýra þeim með meðvitaða huganum. Undirmeðvitundin tekur þetta að sér og gerir það vel eins og þú getur leyft þér að uppgötva með því að hugsa um hvorn fótinn þú ættir að hreyfa næst þegar þú hleypur niður stiga. Ekki reyna að gera þetta því ef þú gerir það, eru miklar líkur á að þú dettir.
6. Undirmeðvitundin er rafallinn sem stjórnar orku okkar
Orku sem knýr okkur til að ná markmiðum okkar í lífinu. Hún framleiðir og losar þessa orku vægðarlaust, og ef meðvitaði hugurinn stjórnar henni ekki, þá er henni stjórnað eftir tilviljun og kringumstæðum.
Hegðun er einungis orka sem er túlkuð á einn eða annan veg. Það er ekki hægt að eyða þessari orku, og það er ekki hægt að skapa hana, en það er hægt að beina henni í ákveðna átt. Undirmeðvitundin er bæði stöðugt og ómeðvitað að nota þessa orku til að halda áfram að markmiðum, nema þú setjir upp annað markmið fyrir hana þá velur hún af handahófi eitthvað af þeim markmiðum sem í henni eru eða velur markmið sem einhver annar hefur lagt til. Án stjórnunar þinnar þá gæti hún stefnt að veikindum, mistökum eða einhverju öðru niðurbrjótandi markmiði og hún nær alltaf því sem hún stefnir að. Hér er augljóst að undirmeðvitundin ætti að vera hlýðinn þjónn. Hún er ekki góður húsbóndi, því hún er ófær um að velja rétt markmið.
Undirmeðvitundinni er ekki ætlað að hugsa , heldur bregðast við hugsunum sem þú gefur henni og framkvæma skipanir þínar. Það er miklu auðveldara að leiðbeina undirmeðvitundinni, heldur en að láta hana ráðskast með þig. Henni er ætlað að vera til þjónustu, og þér er ætlað að stjórna.
Ef undirmeðvitund þín hefur ekki ýtt þér til velgengni og hamingju,
er tími til komin að þú farir að skipa fyrir!
Stundum finnst okkur við vera gjörsamlega orkulaus. Við erum þunglynd og okkur líður illa. Samt sem áður, þá er rafall undirmeðvitundarinnar samtímis að vinna á fullu og framleiðir jafnmikið af orku og venjulega. Tilfinningar eins og ófriður og kvíði nota margfalt magn orku þess sem þarf til að stefna að jákvæðu markmiði. Þó að við gerum okkur ekki grein fyrir því að hatur, hræðsla og gremja séu til staðar í undirmeðvitundinni í hættulegu magni, þá eru þær oft orsökin fyrir upplifun okkar á orkuleysinu og draga í sig þá orku sem við þörfnumst.
Magn orkunnar sem framleitt er í líkamanum skerðist ekki. Við nýtum það einfaldlega ekki á réttan hátt. Manneskja sem nýtur velgengni í vinnu sinni eða atvinnurekstri og fær góð laun eða skapar sér mikil verðmæti, hefur valið velgengni sem markmið, annaðhvort með meðvituðu vali eða fyrir tilviljun.
Ef til vill hefur hún verið svo lánsöm að foreldrar, eða aðrir sem hún elskaði og dáðist að sem barn hafa plantað hugmyndinni inn í undir-meðvitundina. Það er sama hvernig markmiðið komst þarna, hún nær velgengni. Öll orka manneskjunnar fór í að ná markmiðinu og engu var eytt í reiði og hræðslu sem hefði gert hana of uppgefna til að ná árangri vegna stöðugrar kröfu á þeirri orku sem hún býr yfir.
Maðurinn sem gefst alltaf upp þegar hann kemst á ákveðinn punkt er með það að markmiði að ná ekki árangri. Sennilega var hann forritaður sem barn að hann gæti ekki náð miklum árangri, eða að hann væri ófær um að standa undir ábyrgð. Allir stefna að ákveðnu markmiði þó að það sé líf aðgerðaleysis eða leti. Fáir gera sér grein fyrir þessari staðreynd, því oftast er markmiðið grafið í undirmeðvitundinni. Undirmeðvitund þín á að fá leiðsögn frá meðvitaða huganum, þannig er það sem náttúran ætlaðist til að það væri. Undirmeðvitundin gerir allt sem henni er sagt því það er henni eðlislægt. Þú getur stýrt henni að velgengni eða betri heilsu, eða hverju sem þú vilt og hún nær því fyrir þig þótt svo að meðvitaði hugurinn gleymi skipunum sínum. Þegar hugmynd er orðin föst í undirmeðvitundinni þá nærir hún daglega hegðun þína með þessari hugmynd og gerir þig að því sem þú ert.
Það er aðeins ein tegund orku í undirmeðvitundinni og hún er hvorki neikvæð eða jákvæð. Það er þitt að stýra henni til að vinna fyrir þig en ekki á móti þér. En hvernig stýrir maður henni?
Með því að nota sjálfsdáleiðslu getur þú stjórnað og valið hvernig þú vilt bregðast núið í framtíðinni. Það gerir þú með því að leiða þessa orku á uppbyggjandi máta!
Að öllu því sem að ofan er sagt er ljóst að það er mikið sem mæðir á taugakerfi mannsins.
Léttum álagið, kyrrum hugann, veljum og leyfum ljúfum og ákveðnum, skýrum, kröftugum og mildum hugsunum og hugmyndum að fara um boðleiðirnar.
Líf, ljós og mikil gleði
Viðar Aðalsteinsson, mannræktarráðgjafi
08. MAÍ 2013